Friday, September 08, 2017

Heim.

Nú erum við komin aftur heim. Nú er meira að segja orðið heilt ár síðan við komum aftur. Aftur virkar skrýtið orð í þessu samhengi því á margan hátt líður mér eins og hér hafi ég aldrei átt heima. Eins og það sem áður var hafi aldrei verið og verði aldrei aftur. Og líklegast er það líka þannig ef maður stígur nógu langt og lengi út úr sápukúlusamfélaginu okkar. Samfélagi sem er á einhvern undarlegan hátt miðja alheimsins en samt varla hluti af honum. En svo er sumt sem er alveg eins - bara algjörlega eins. Sama sagan, óbreytt ástand, endurtekning.

Á einum degi sveiflast ég frá því að finnast ég varla geta talað því enginn geti mögulega skilið orðin sem út úr mér koma - til þess að efast um að ég hafi nokkurn tíman farið eða breyst? Var það kannski bara ímyndun? Síðari tilfinningin er hræðilegri en sú fyrri - ótrúlegt en satt. Mér finnst öruggara að vera óörugg. Öruggara að vera á jaðrinum, líða eins og ég sé aðeins á skjön við þetta allt. Passi ekki alveg inn í þetta líf. Mun öruggara en að líða eins og ég hafi aldrei breyst, aldrei upplifað eitthvað annað og sé ennþá sú sama. Sama sagan, óbreytt ástand.

Ég verð þurr í munninum þegar ég átta mig á því að ég endurtek æ oftar fyrirsagnir og upphrópanir annarra. Reyni ósjálfsrátt að falla inn í hópinn. Gleðja og geðjast. Ormurinn í maga mér nærist á áliti annara og fitnar við hvern samanburð. Hverja mælingu, hvert viðmið. Á meðan minnka ég. Hugurinn hættir að hlýða, reikar um stefnulaus og stjórnlaus. Ég horfi á myndir sem ég vil ekki sjá og leyfi mér að bregðast við. Hjartað slær hraðar og hálsinn herðir að mér. Ég reyni að aftengjast huganum - hann og ég erum ekki eitt. Ég veit það - ég er ekki hugsanir mínar. Hugsa minna. Anda meira.

Aftur heim. Heima er það sem hjartað er. En til þess þarf hjartað að slá í takt. Við samfélagið og fólkið. Eða kannski þarf mitt hjarta bara að finna sinn eiginn takt.


Sunday, April 17, 2016

Hér og nú

Sítrónurnar falla af trjánum og veturinn í Malaví nálgast með yndislega svöl kvöld og morgna og heiðbláan himinn. Klukkan er sjö og reykjarlyktin berst með morgungolunni frá nærliggjandi þorpum þar sem malavískar konur matbúa morgungrautinn yfir opnum eldi. Haninn í næsta húsi hóf raust sína um fimm leytið og fyrstu sólargeislarnir smeygðu sér inn um gluggann um klukkan sex. Þá vaknaði líka yngsti fjölskyldumeðlimurinn og heimasætan skreið upp í til okkar. Fullkomin eining.

Við eyddum gærkvöldinu í félagsskap fólks sem kann að segja skemmtilegar sögur og njóta stundarinnar. Við höfum kynnst fólki hér í Malaví sem kemur frá ótal ólíkum löndum og sinnir mismunandi verkefnum en hefur á einhvern undraverðan hátt svo sameiginlega sýn á lífið. Að njóta, virða og elska.

"Mamma við skulum bara vera í núhugsun" sagði Hera Fönn við mig um daginn þegar við ræddum fortíð og framtíð. Það er takmarkið - að njóta samveru, fólks, umhverfis og aðstæðna á meðvitaðan og markvissan hátt næstu mánuðina þangað til að Malavíævintýrið okkar rennur sitt skeið og önnur taka við.